Teddi við Perluna 1996

Teddi sýndi verk sín reglulega í Perlunni, hér er hann að setja upp sýningu árið 2002

Mörg listaverka Tedda eru enn til sölu og á forsíðu vefsins eru listaverk sem hægt að gera tilboð í.

Listaferill

Listamenn hafa á tuttugustu öldinni oftar en ekki starfað eftir forskrift um vinnubrögð. TEDDI er frjáls listamaður sem lætur ekki segja sér fyrir verkum. Listaverk hans fæðast innan frá úr hans eigin hugarheimi, frumleg, sérkennileg. Það er skynsamlegt að kynna sér verk listamanna og þora að leggja á þau sjálfstætt mat, velja og hafna með opnum huga – og fara ekki að forskrift í þeim efnum. Listamenn verða að finna sína eigin leið í skóla lífsins. Hefðbundið listnám TEDDA var stutt, hann sótti námskeið í Finnlandi 1993, en sem ungur maður hafði hann unnið við grafík í Lithóprent áður en hann hóf markvisst að vinna með tré og önnur efni.

TEDDI er eldhugi, fullur lífsþorsta og sköpunargleði. Hann sigldi höfin sjö og hafði viðkomu í flestum heimshornum. Hann reyndi fyrir sér með mörg listform en nam staðar við sjálft lífstréð, Ask Yggdrasils, sem breiðir greinar sínar um heim allan. Eftir það varð tréð sá efniviður sem hann hefur unnið með. Í þessu tákni lífsins fann hann sinn stað og sína stund í tilverunni.

Í bréfi til Tedda segir Richard von Weizäcker, fyrrum forseti Þýskalands: „Það er ekki ætlun mín að bera saman hið fagurfræðilega og um leið andríka form verks yðar við hrifningu mína á heimahögum yðar. Þó minnir verkið stöðugt á þann stórkostlega tíma sem ég átti í fallegu landi yðar. Að sama skapi er inntak verksins, eins og titill þess ber vott um, mér stöðug áminning um skyldur daglegra starfa minna”. Þetta verk í eigu Weizäckers ber nafnið „Gott samlíf”. Efniviðurinn í þennan skúlptúr sótti TEDDI til Caracas í Venesúela.


MAGNÚS TH. MAGNÚSSON. Naustabryggju 18 - 110 Reykjavík.
Sími: 853 9953. Tölvupóstfang: teddi(a)teddi.net