Sýningar

Í verkum Tedda má finna streng og tilfinningu sem nálgast það að vera frumkraftur listarinnar eða frumþörfina sem listin er manninum. Sum verkin eru eins og 5000 ára gamlar leifar af fornri menningu. Það er eins og að í efniviði listaverkanna megi finna tíma, aldur og reynslu sem speglar aldur og reynslu listamannsins sjálfs. Viðurinn er ekki tækur til sköpunar fyrr en hann hefur safnað um sig nógu mörgum árhringjum og ekki er verra ef hann hefur einhverja sögu að segja, hvort sem hann hefur rekið stefnulaust um heimshöfin eða legið sem bryggjustólpi í Reykjavíkurhöfn um áratugaskeið. Það má segja að í viðnum og Tedda sjálfum mætast aldir og áratugir af reynslu og ævi sem kalla síðan á form og nýjan tilgang eða líf. Teddi nýtir formskyn sitt og þekkingu úr prentiðninni og finnur henni nýjan farveg í tré eða málmi. Gömul brotin skipsskrúfa úr strandi í Skerjafirðinum öðlast nýtt líf sem koparskúlptúr í listaverki, eins og kannski listin hefur kallað Tedda sjálfan til sín eftir eitthvert strandið þegar hann hafði velkst of lengi um heimshöfin.

Teddi er ævintýramaður af gamla skólanum og efnið ber heimsmynd hans vitni. Í verkunum eru ekki aðeins rekaviður og bryggjustólpar heldur má einnig nefna purpurahjarta frá Chile, mahogni og eik af ýmsum gerðum. Í nokkrum verkum mætast járnviður frá afríku og íslenskt líparít.

Það fór vel á með forseta Íslands Ólafi R. Grímssyni og Tedda á Sjöttu sýningu Tedda í Perlunni sem var jafnframt 16. stóra sýning hans.

Teddi er listrænt ólíkindatól og verkin endurspegja persónu Tedda sjálfs, hann er kjaftfor og óhræddur og lætur allt flakka. Hann virðist óbundinn af hugmyndafræði eða stefnum og virðist ekki velta mikið fyrir sér hvað má og hvað má ekki, hann er óhræddur við að prófa sig áfram. Hann bindur sig ekki við ákvenar aðferðir heldur er hann síleitandi, í álverkunum er hann til kominn lengra frá frumsköpuninni, þau eru söguð með tölvustýrðum leysigeisla eftir forskrift listamannsins.

Í verkum Tedda má finna fínleika og næmni í formskyni í bland við grófari og óheflaðra myndmál upp í bráðfyndin uppátæki eins og gómurinn sem var límdur á holan marmarakassa frá sýningunni 2002. Tryggingafræðingur hét verkið, kalt að utan, holt að innan. Nafngiftirnar spanna líkt svið. Rússnesk rót frá Síberíu hefur orðið að verki sem heitir ,,Samviska", bogadregnar línur í öðru verki kalla á heitið ,,Djúpsjávarfiskur" á meðan hvassara form kallar á nafnið, ,,Aggresívur stjórnmálamaður". En hvað sem því líður ættu allir að finna eitthvað sem gleður augað. Ef það dugar ekki ættu menn að loka augunum og þreifa á forminu. Það má snerta verkin.

    Andri Snær Magnason

Listi yfir verk í opinberri eigu:

Richard von Weizsäcker,fyrrverandi forseti Þýskalands
Künstlerhaus í Cuxhaven
Slökkvistöðin í Boston
Seamans Mission í Boston
Reykjavíkurborg, Ráðhús Reykjavíkur
Slökkvistöð Reykjavíkur
Reykjavíkurhöfn
Brunamálastofnun ríkisins
Árbæjarlaug
Landsbanki Íslands
Seðlabanki Íslands
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
Visa Ísland

Samskip hf.
Eimskip hf.
Verkamannafélagið Dagsbrún
Blindrafélagið
Flugleiðir hf.
Ferðaskrifstofan Úrval – Útsýn
Samhjálp
Sjúkrahús Reykjavíkur
Kvennaathvarfið
Sjúkrastofnunin Vogur
Barnastofa
Orkuveita Reykjavíkur


MAGNÚS TH. MAGNÚSSON. Naustabryggju 18 - 110 Reykjavík.
Sími: 853 9953. Tölvupóstfang: teddi(a)teddi.net